mánudagur, október 11, 2004

Valdníðsla af verstu sort

Ekkert er heilagt, aldagamlar hefðir eru settar af og algert stjórnleysi ríkir! Á löngum tíma hefur skapast sú hefð til sjós að vakthafandi matsveinn hefur haft algeran og ófrávíkjanlegan umráðarétt yfir öllum kokksins híbýlum. Rétt í þessu hefur vakthafandi skipstjórnandi tekið sér mikið vald, hann gengur um munaðarhirzlur kokksins með offorsi og brýtur á skílausum réttindum vakthafandi matsveins og fer með gjörðum sínum langt út fyrir starfssvið sitt.

Svo gremju kokksins sé gefin gaumur (ekki að ástæðulausu) þá fór vakthafandi stýrimaður ófrjálsri nautnanna hendi um sælgæti nokkurt sem ætlað var til betri tíma en tilgangur slikkerísins var einmitt að gleðja áhöfn skipsins á nálægum hátíðisdegi, raunar á afmælisdegi téðs skipstjórnanda.

Þetta mál er reyndar svo nýtilkomið að matsveini hefur ekki gefist tími til að íhuga viðhlýtandi aðgerðir gegn ákærða. Ljóst er þó af málanna hljóðan að aðgerða er þörf og mun kokkur því tilkynna skipstjóra skipsins meinta brotastarfsemi stýrimanns og krefjast tilhýðilegra aðgerða.
Segjum þetta gott í bili, enda er kominn tími á smókí djó og coffie jane.

The cocks logbook 10.10.2004-03:31:37