miðvikudagur, desember 15, 2004

Frá ritstjórn

Ritstjórn veitti því athygli á nýlegu veraldarvefsvafri sínu að greinar eftir Té eru í miklum meirihluta birtra greina á þessu vefriti og vegna fyrirspurna lesenda ætla ég, fyrir hönd ritstjórnar að útskýra þetta nánar.

Í útgáfustarfsemi af þessu kaliberi er sjálfsagt að ritstjórn hafi úrslitavald um birtingu greina, sem hugsanlega geta sært blygðunarkennd almennings og eða varpað rýrð á yfirlýsta stefnu ritstjórnar í almennri útgáfustarfsemi. Sú hefur orðið raunin að ritstjórn ,,Löngu Línu’’ hefur ítrekað þurft að hafa afskipti af einum blaðamanna sinna vegna slælegra vinnubragða og sinnuleysis hans í garð markmiða fjölmiðilsins og nú er svo komið að ekki verður lengur við unað.

Ritstjórnin var kölluð til skyndifundar í morgun þar sem eftirfarandi ályktun var samþykkt einhljóða af viðstöddum:

Ritstjórn ,,The longliners’’ hefur, að undangenginni atkvæðagreiðslu svipt The kid sæti sínu í ritstjórn tímaritssins vegna undirlægjuháttar hans og þess að markmið ritstjórnar samræmdust ekki sjónarmiðum The kid. Þrátt fyrir þessa ákvörðun mun The kid enn um sinn halda blaðamannapassa sínum, a.m.k. meðan siðanefnd blaðamannafélagsins hefur málið til umfjöllunar.

Á fundinum var einnig fjallað um hvernig fylla skyldi skarð fráfarandi nefndarmanns og var ákveðið, eftir snarpar umræður að Té tæki við þeim verkefnum sem áður voru á The kid’s herðum. Og er ritstjórn þá þannig skipuð: Ritstjóri er Té og önnur embætti skipar Té.

Fyrir hönd ritstjórnar, Té


fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Stærsta pulsan


Mikil er útsjónarsemi ráðsmanna okkar ástkæra lýðveldis. Nú á dögunum varð mér þetta allt saman ljóst, mér birtist vitrun um hvað allt brauðstritið snýst. Öll okkar ráð leggjum við í hendur lýðræðislegra kjörinna ráðamanna, þeir vinna vinnuna okkar.

Lífið snýst um stærstu pulsu í heimi, 12 metra langa. Lífið snýst um sendiráð Íslands í Mósambík. Lífið snýst um síðasta haftið sem sprengt er í jarðgöngum og opnun nýjasta sjónvarpssendisins á Bolungarvík. Lífið snýst um allt þetta litla, þetta smáa sem gefur grámyglulegum hversdeginum lit. Rauður. Blár. Grænn.

Án okkar ástkæru valdstjórnar hvar værum við þá? Hver mundi veiða fiskinn og hver mundi slátra besta lambi í heimi án kvótakerfa, viðhlýtandi laga og reglugerða? Mundi ekki allir flosna upp, ,,fara í ruglið'', ef ekki væri fyrir 100% álögur á bjór og bensín. Hver mundi lækna sjúka ef ekki væri fyrir komugjöld og hver mundi mennta stúdenta ef ekki væri fyrir hófleg stimpilgjöld háskólanna. Hvar værum við nú ef að ráðamenn ækju ekki um á nýjustu gerðum yfirbótajeppa.

Nánari útskýringar á raunveruleikanum má nálgast í þennan hnellna söngtexta geirfuglanna:

Byrjaðu í dag að elska

Morgundagurinn kemur á morgun,
og ef ekki þá kannski bara seinna.
Ég vaknaði í morgun og vissi um leið
að ég þyrfti að gera eitthvað, það var að elska

Byrjaðu í dag að elska,
byrjaðu í dag að elska

Og heimurinn snerist annan hring,
það var ekki sá fyrsti.
Ég hafði fyrir löngu komið því kring
að þessi dagur yrði helgaður ást

Byrjaðu í dag að elska,
byrjaðu í dag að elska...

föstudagur, október 22, 2004

Í Deiglunni

Eftir fyrstu veiðiferð M/S Gullhólma með línu þessa vertíðina þykir ljóst að betur má ef duga skal. Aflabrögð vóru með eindæmum léleg og af þeim sökum stefnir hugur vor út. Eftir miklar og málefnalegar umræður um borð um ágæti hinna ýmsu fiskimiða - á þessum síðustu og verstu - kom upp í umræðuna fiskverð og þótti fullreynt að verð á innlendum mörkuðum væri (um þessar mundir) skammarlega lágt. Af þessu tilefni samþykkti áhöfnin á Gullhólma ályktun og fólu fjölmiðlafulltrúa sínum til birtingar.

Ályktunin er eftirfarandi: ,,Þetta er ekki nógu gott.´´

Eftir að ályktun fundarins var borin undir aðila vinnumarkaðarins í landi var síðan boðað til fundar um borð og skipstjórinn (Valentínus Guðnason) birti áhöfninni eftirfarandi:
,,Þið skuluð taka með ykkur vegabréf og ballföt í næsta róður (í kvöld) því ég ábyrgist ekki hvar landað verður uppúr skipinu næst. Útgerðin mun skaffa viðeigandi gjaldeyri.´´

Ég ,sem fyrrum vakthafandi matsveinn, hef komið mér í talsverðan bobba (hver er þessi bobbi annars) því bráðabirgðavegabréf mitt, með öllum mínum einkennisnúmerum, tölum og myndum, rann út um mitt sumar síðastliðið. En það tekur því ekki að örvænta (skipverjar á M/S Gullhólma kveinka sér ekki við kverkaskít) því ég fann gamla nafnskírteinið mitt í myrkri kompu, og mun framvísa tollayfirvöldum erlends ríkis ef til þess kemur og með þarf.

Hvað sem síðan skeður verður vefur þessi starfræktur áfram a.m.k. svona fyrst um sinn.

mánudagur, október 18, 2004

Sjitturinn

Er þið að djóka með þennan djöfulsins kulda, á meðan helv.... hann T sat inni í kaffi 24/7 (eins og venjulega) þá var ég að frjósa í hel á djöfulsins krananum. Já og meðan ég man: Ásmundur þú ert ömurlegur.
Og hana nú, strákurinn bara búinn að hella úr skálum reiði sinnar. Ég er samt ekkert voða reiður við T en hinsvegar hata ég Ásmund eða Svikmund eins og kunnugir kalla hann.

Annars var helgin bara nokkuð róleg (eða ekki) en tiltölulega stórtíðinda laus þrátt fyrir að Brokey hafi tapað í körfunni og kom í kjölfarið vantrauststillaga á Múresan þjálfara. Alvarlegir hlutir að ske í boltanum.

P.s. já alveg rétt Ásmundur þú ert fífl

Thekid

mánudagur, október 11, 2004

Dear Cockbook


Endalokin nálgast, ég sé líf mitt hlaupa fyrir hugskotssjónum mínum. Öll þessi óleystu vandamál, allur þessi ágreiningur - ó þvílík eymd. Frá og með öðru kvöldi verð ég ekki lengur vakthafandi matsveinn á þessu skipi ég verð frá að hverfa, víkja fyrir manni, sem að öllum ólöstuðum verðskuldar fyllilega stöðu matsveins hér um borð.

Sá sem við starfanum tekur er enginn annar en hæstvirtur forseti bæjarstjórnar Austurbæjar TM, starfandi bæjarstjóri, fjarbóndi og drengur góður - Þorsteinn Kúld Björnsson. En þrátt fyrir allt er vakthafandi kokkur með nægjanlega breitt bak sem mun bera mig yfir þá breiðu gjá breytinga sem yfir vofir. En að öðru. Loksins.....


Hvað er málið með alheiminn?
Einsog svo mörg ný náttúrulögmál þá er lögmálið um endanleika alheimsins upphugsað (af Bæja), útskýrt (af T) og sannreynt (af ðe Kid) um borð í M/S Gullhólma.

Lögmál:
1. Alheimurinn er prik - endanleikinn hans fæst á þann hátt að ef þú leggur af stað frá áður óþekktum punkti (á prikinu) og gengur áfram í áður ótilgreindan tíma-gefið er að aldur og fyrri störf eru ekki breytur í jöfnunni- þá hlýtur þú að koma aftur á sama stað og þar með að endimörkum alheimsins. - Bæji

2. Alheimurinn er ekki prik fyrir fimmaura - T.

3. Ðe Kid tók engan þátt í umræðunum enda var hann ennþá upptekinn af hugleiðingum sínum um einræðisríki í Grímsey, en lét það þó fylgja að hann skyldi leggja fram skýringarmyndir lögmálinu til frekari staðfestingar.

The cocks logbook 11.10.2004 03:03:59


Valdníðsla af verstu sort

Ekkert er heilagt, aldagamlar hefðir eru settar af og algert stjórnleysi ríkir! Á löngum tíma hefur skapast sú hefð til sjós að vakthafandi matsveinn hefur haft algeran og ófrávíkjanlegan umráðarétt yfir öllum kokksins híbýlum. Rétt í þessu hefur vakthafandi skipstjórnandi tekið sér mikið vald, hann gengur um munaðarhirzlur kokksins með offorsi og brýtur á skílausum réttindum vakthafandi matsveins og fer með gjörðum sínum langt út fyrir starfssvið sitt.

Svo gremju kokksins sé gefin gaumur (ekki að ástæðulausu) þá fór vakthafandi stýrimaður ófrjálsri nautnanna hendi um sælgæti nokkurt sem ætlað var til betri tíma en tilgangur slikkerísins var einmitt að gleðja áhöfn skipsins á nálægum hátíðisdegi, raunar á afmælisdegi téðs skipstjórnanda.

Þetta mál er reyndar svo nýtilkomið að matsveini hefur ekki gefist tími til að íhuga viðhlýtandi aðgerðir gegn ákærða. Ljóst er þó af málanna hljóðan að aðgerða er þörf og mun kokkur því tilkynna skipstjóra skipsins meinta brotastarfsemi stýrimanns og krefjast tilhýðilegra aðgerða.
Segjum þetta gott í bili, enda er kominn tími á smókí djó og coffie jane.

The cocks logbook 10.10.2004-03:31:37

sunnudagur, október 10, 2004

Heil og sæl.

Í nýlegri viðhorfskönnun Price-Waterhouse-Coopers um almennatengsl lítilla og meðalstórra vinnustaða á hinum almenna vinnumarkaði kom í ljós mikil þörf á bættum upplýsingatengslum milli hins almenna borgara og þeirra sérhæfðra verkamanna, til sjós og lands, sem sinna frumöflun í þágu samfélagsins.

Til að mæta þessari auknu eftirspurn um upplýsingu hafa áhafnarmeðlimir á M/S Gullhólma SH-201 tekið tæknina í sína þjónustu og munu í komandi landlegum senda frá sér yfirgripsmiklar lýsingar á lífi og starfi um borð.